Einstaklingur sem selur eigin fasteign ber alltaf sjálfur ábyrgð á því að þær upplýsingar sem fram koma í söluyfirliti séu réttar,
hvort sem selt er með aðstoð fasteignasala eða ekki. Þá er seljanda skylt að greina frá öllum þeim göllum og annmörkum sem eru á eign
hans og honum er kunnugt um í söluyfirliti.
Athuga skal að á kaupanda hvílir rík skoðunarskylda. Þannig getur kaupandi ekki krafist bóta vegna eiginleika fasteignar sem honum hefði
mátt vera kunnugt um með ítarlegri sjónskoðun á fasteigninni, né vegna þátta sem eru í samræmi við lýsingu í söluyfirliti.
Ef í ljós kemur galli á fasteign er það almennt undir kaupanda komið að sanna tjónið, sem og að sanna hvort seljanda hafi verið kunnugt
um gallann og ekki upplýst um hann eða hvort um er að ræða galla sem seljanda var ekki kunnugt um, en telja megi rétt að hann beri ábyrgð
á að hluta eða öllu leyti. Það skal sérstaklega bent á að skv. dómum í fasteignamálum er almennt talið að ekki sé um galla á fasteign að
ræða ef verðmætið er minna en 10% af söluverði fasteignar. Að öðru leyti er vísað til III. kafla laga nr. 40/2002, um nánari umfjöllun um
eiginleika fasteignar, galla, fylgifé o.fl.
Í mörgum tilfellum reynist vel að miðla málum milli aðila, jafnvel með aðstoð lögmanns eða fasteignasala.
Dómsmál vegna galla í fasteignum geta verið mjög kostnaðarsöm og tekið langan tíma.